Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: Þór - FH 0-2 | Þór féll eftir enn eitt tapið

Ólafur Haukur Tómasson á Þórsvelli skrifar
Atli Guðnason lagði upp þrjú mörk og skoraði eitt þegar FH vann Fjölni í síðustu umferð.
Atli Guðnason lagði upp þrjú mörk og skoraði eitt þegar FH vann Fjölni í síðustu umferð. Vísir/Stefán
Þór féll í dag úr Pepsi-deild karla eftir tapleik gegn toppliði FH á Þórsvellinum í kvöld.

Heimamenn í Þór byrjuðu leikinn betur og sóttu stíft að marki FH. Þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir Þórs til að nýta meðvindinn í fyrri hálfleik tókst þeim ekki að skora. Liðin héldu inn til hálfleiks án marks.

Í seinni hálfleik tóku FH sig á og nýttu sér meðvindinn. Hornspyrna Ólafs Páls Snorrasonar fann miðvörðinn Kassim Doumbia á nærstönginni sem stangaði boltann í netið og kom gestunum yfir.

Andartökum síðar voru þeir félagar aftur á ferðinni en þá tók Ólafur Páll aukaspyrnu utan af kantinum. Boltinn rataði í gegnum þvöguna áður en hann barst til Doumbia sem stýrði boltanum í netið og skoraði annað mark sitt í leiknum.

Þar við sat. FH styrkir stöðu sína á toppnum en Þór er fallið í 1.deildina.

Páll Viðar Gíslason: Þessi leikur felldi okkur ekki

„Mér hefur liðið betur. Mér fannst þó Þórsliðið spila vel í dag gegn besta liði landsins og það sem mér fannst skilja að var að þeir voru öflugir í vítateignum í föstum leikatriðum með vindinn í bakinu og það var það sem skildi að,” sagði Páll Viðar eftir leikinn.

„Ég vil koma því á hreint að við féllum ekki í þessum leik í dag. Það er alveg morgunljóst og klárlega hefðum við náð í fleiri stig í vetur ef frammistaðan hefði verið eins og hún var í dag,” bætti hann við.

Enn eru þrír leikir en Þór eru fallnir. Páll veit ekki hvernig ástandið á leikmannahópnum verður á morgun en vonast eftir því að þeir reyni að klára leiktíðina með sóma.

„Ég get ekki svarað hvernig leikmenn vakna í fyrramálið ef það er staðfest niðurstaða að við föllum. Ég reikna með að við Þórsarar reynum að klára þetta eins og menn, með hausinn uppi og reyna að krafsa í fleiri stig því það er óásættanlegt að enda með þennan stigafjölda. Við erum vonandi ekki komnir með tærnar upp í loft og hættir að spila. Ég vona að menn njóti þess að spila á meðan við erum enn í deild þeirra bestu,” sagði Páll.

„Á meðan ég er þjálfari og með samning þá er ég þjálfari Þórs og stefni á að vera það áfram nema annað komi í ljós,” bætti Páll við þegar hann var spurður út í framtíð sína hjá Þór.

Heimir Guðjónsson: Er ekki ánægður með að hafa það á samviskunni

„Ég er gríðarlega sáttur. Þetta var mjög erfiður leikur og mér fannst Þórsararnir gefa allt sem þeir áttu í þennan leik. Við vissum að þetta væri síðasti séns þeirra að halda sér í deildinni og mér fannst þeir mjög vel skipulagðir og það gekk erfiðlega að brjóta þá niður. Það tókst ögn betur í seinni hálfleik og við náðum að skora tvö mörk eftir föst leikatriði. Þetta er sanngjarnt og frábært að koma hingað og ná í stigin þrjú,” sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH eftir leikinn í kvöld.

Mikið hvassviðri var á meðan leiknum stóð og setti það mikinn svip á leikinn. Til að mynda gekk gestunum illa að spila gegn vindi.

„Vindurinn var truflandi. Við náðum ekki upp okkar leik, spila boltanum eftir grasinu og koma boltanum upp völlin nógu oft en það lagaðist í seinni hálfleik,”

Fyrir tíu árum, þegar FH vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil á Akureyrarvelli, var Heimir fyrirliði FH sem vann KA í lokaleik þeirrar leiktíðar. FH sigraði þann leik og felldi um leið KA úr efstu deild. Þetta er því í annað skipti sem hann fellir lið frá Akureyri. Vissi hann af því?

„Nei, ég var nú reyndar bara að frétta það hérna áðan að ég hefði gert það. Það er ekki eitthvað sem ég er sérstaklega ánægður með og vil hafa á samviskunni en ég þarf að lifa með því,” sagði Heimir.

Ólafur Páll Snorrason: Við reynum að hugsa ekki um þá

„Þetta var erfiður leikur í erfiðum aðstæðum fyrir bæði lið. Við tókum okkur á í seinni hálfleik og skoruðum tvö mörk eftir að hafa legið undir pressu í fyrri hálfleik. Við erum því afar sáttir með að koma með þrjú stig út úr leiknum,” sagði Ólafur Páll Snorrason, fyrirliði FH eftir leikinn.

Ólafur Páll lagði upp bæði mörk FH með flottum spyrnum úr föstum leikatriðum með vindinn í bakið. Hann taldi sig geta nýtt vindinn og eins og kom á daginn.

„Maður þurfti eiginlega bara að ná honum upp í loftið því þá snérist hann eiginlega inn að marki. Ég er ekki ánægður með minn leik því ég var ekki sérstaklega góður í leiknum en tvær stoðsendingar, það er gott,”

FH sótti mikilvæg þrjú stig í titilbaráttunni en keppinautar þeirra, Stjarnan eiga leik seinna í kvöld gegn Keflavík. Ólafur sagði að hann og liðsfélagar hans munu fylgjast vel með gangi mála í þeim leik.

„Við verðum í vélinni á leiðinni heim þegar leikurinn er í gangi og munum kveikja á símunum okkar þegar við lendum og sjá hver staðan er. Það mikilvægasta er að við unnum okkar leik og reynum að hugsa ekki um hvað þeir gera, við einbeitum okkur bara að okkar leik,”

Rétt áður en leikurinn hófst féll stuðningsmaður FH niður úr stúkunni er hann reyndi að teygja sig til að taka í hönd leikmanna þegar þeir gengu til búningsklefa. Það fór ekki betur en svo að hann steyptist fram af og lenti illa með höfuðið á steyptan kant og hlaut stóran skurð. Mikið fát fór á stúkuna og var hann fluttur í burtu í sjúkrabíl eftir að hafa fengið aðhlynningu. Ólafur Páll var rétt hjá þegar þetta skeði og sagði að þetta hafi slegið sína menn svolítið út af laginu.

„Ég var að labba inn í klefa með Jón Ragnar fyrir aftan mig. Jón sér hann steypast fram af en ég sný mér við sé hann liggja þarna og heyrði dynkina. Að sjálfsögðu slær þetta mann svolítið út af laginu í upphafi leiks og vonandi að hann jafni sig fljótt á þessu,” sagði Ólafur Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×