Handbolti

Níu íslensk mörk í tapi Mors-Thy | Tandri öflugur í liði Rioch

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Aron Hostert spilaði geysilega vel með ÍBV í fyrra.
Róbert Aron Hostert spilaði geysilega vel með ÍBV í fyrra. Vísir/Daníel
Íslendingarnir í röðum danska handknattleiksliðsins Mors-Thy skoruðu samtals níu mörk þegar liðið tapaði með sex mörkum fyrir Skjern í dönsku úrvalsdeildinni, 38-32. Staðan í hálfleik var 20-16, Skjern í vil.

Guðmundur Árni Ólafsson skoraði fimm mörk úr hægra horninu og besti leikmaður Íslandsmótsins í handbolta í fyrra, Róbert Aron Hostert, skoraði fjögur. Jesper Meinby var markahæstur í liði Mors-Thy með sjö mörk.

Dönsku landsliðsmennirnir Kasper Søndergaard og Nikolaj Markussen skoruðu níu mörk hvor fyrir Skjern sem situr í 5. sæti deildarinnar með sjö stig. Mors-Thy er hins vegar í 13. og næstneðsta sæti með aðeins tvö stig.

Guðmundur Árni hefur skorað 20 mörk í leikjunum sex sem búnir eru, en hann hefur nýtt 68% skota sinna. Róbert Aron hefur haft hægar um sig en hann er aðeins kominn með sjö mörk og fjórar stoðsendingar í sex leikjum.

Þá átti Tandri Már Konráðsson góðan leik þegar Rioch tapaði fyrir Hammarby, 27-21, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Tandri var markahæstur í liði Rioch með sex mörk, en liðið er með tvö stig eftir fjórar umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×