Tískukóngurinn Giorgio Armani upplýsti gesti tískuvikunnar í Mílanó um að stórleikarinn George Clooney ætlaði að ganga í það heilaga í jakkafötum frá merkinu. Þetta sagði Giorgio sjálfur eftir tískusýningu merkisins á fimmtudaginn.
„George er búinn að velja og er búinn að fara í mátun fyrir Armani-jakkaföt fyrir brúðkaupið sitt,“ sagði Giorgio og jakkafötin eru að sjálfsögðu sérsaumuð.
George er oftar en ekki í jakkafötum frá Armani á rauða dreglinum og er afar hrifinn af handbragði Giorgio.
George gengur að eiga sína heittelskuðu, lögfræðinginn Amal Alamuddin, í Feneyjum á Ítaliu þann 27. september næstkomandi.
