Fótbolti

Börsungar þurfa ekki að hafa áhyggjur af Zlatan í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Vísir/Getty
Sænski landsliðsframherjinn Zlatan Ibrahimovic verður ekki með Paris St-Germain í kvöld þegar liðið fær Barcelona í heimsókn á Parc des Princes í París í Meistaradeildinni í fótbolta.

Hinn 32 ára gamli Zlatan hefur misst af tveimur síðustu deildarleikjum liðsins vegna meiðsla í vinstri hæl og hann fékk ekki nógu góðar niðurstöður úr rannsóknum í gær.

PSG sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem sagt frá nokkrum neikvæðum prófunum á meiðslum Zlatan og að þau hafi sýnt að hann er ekki leikfær í kvöld.

PSG  gerði jafntefli við Ajax í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni en Barcelona vann 1-0 sigur á Apoel Nicosia á sama tíma.

Paris St-Germain hefur ekki tapað í 9 leikjum sínum á tímabilinu en reyndar hafa sex leikjanna endað með jafntefli.

Zlatan Ibrahimovic var í eitt tímabil hjá Barcelona, skoraði þá 21 mark í 41 leik og vann fjóra titla með liðinu en lenti upp á kant við þáverandi þjálfara Pep Guardiola og yfirgaf félagið um haustið.

Zlatan Ibrahimovic byrjaði tímabilið mjög vel með PSG og var með 7 mörk í fyrstu 3 leikjunum en hann skoraði 41 mark í 45 leikjum í öllum keppnum á síðustu leiktíð.

Leikur Paris St-Germain og Barcelona verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD í kvöld og hefst hann klukkan 18.45.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×