Handbolti

Snorri markahæstur í tapi Sélestat

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn skorar og skorar fyrir Sélestat.
Snorri Steinn skorar og skorar fyrir Sélestat. Vísir/Getty
Fjórir Íslendingar voru í eldlínunni í franska handboltanum í kvöld.

Snorri Steinn Guðjónsson
heldur áfram að raða inn mörkunum fyrir Sélestat, en leikstjórnandinn skoraði tólf mörk, þar af þrjú úr vítaköstum, þegar lið hans tapaði með tveimur mörkum, 29-31, fyrir Chambéry á heimavelli. Staðan í hálfleik var 13-14, Chambéry í vil.

Snorri hefur nú skorað 45 mörk í fimm leikjum í frönsku deildinni, eða níu mörk að meðaltali í leik. Það hefur þó dugað skammt því Sélestat er aðeins með tvö stig eftir leikina fimm.

Arnór Atlason skoraði tvö mörk þegar Saint Raphael gerði 35-35 jafntefli gegn Créteil á útivelli. Staðan í hálfleik var 19-12, Créteil í vil, en Arnór og félagar áttu frábæran endasprett og tryggðu sér annað stigið.

Raphaël Caucheteux var langmarkahæstur í liði Saint Raphael með 15 mörk, en Hugo Descat skoraði mest fyrir Créteil, eða tíu mörk.

Ásgeir Örn Hallgrímsson, sem verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum gegn Ísrael og Svartfjallalandi um næstu mánaðarmót, skoraði tvö mörk þegar Nimes vann átta marka sigur, 27-35, á Istres á útivelli.

Þá vann Paris SG öruggan níu marka sigur, 35-26, á Tremblay á heimavelli.

Jeffrey M'Tima var markahæstur í liði Paris með níu mörk, en þeir Gabor Csaszar og Igor Vori komu næstir með fjögur mörk hvor. Róbert Gunnarsson komst ekki á blað hjá Paris.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×