Sveitin fagnar nú útkomu sinnar fyrstu plötu sem ber nafnið Burning Heat. Brynhildur gefur plötuna út í eigin nafni, sem hún segir æ algengara meðal íslenskra tónlistarmanna.
„Þessa dagana eru margir allt í öllu og sumir tónlistarmenn spila jafnvel inn öll hljóðfæri, mixa og mastera og gefa út sjálfir. Sjálf hef ég her góðra manna og kvenna með mér en plötuna gef ég út sjálf. Við tókum upp nokkur lög haustið 2012, héldum áfram 2013 og settum loks punktinn yfir i-ið í sumar svo þetta hefur tekið okkur um tvö ár.“
Á plötu Beebee and the Bluebirds má finna fjölbreytt lög, eðalpopp með blús- og jazzáhrifum.
„Við munum fylgja plötunni eftir á næstunni, kíkja á landsbyggðina og stefnum á að halda erlendis á næsta ári. Tónlistinni okkar hefur verið sýndur mikill áhugi á Spáni og Þýskalandi og það verður gaman að troða upp fyrir erlenda aðdáendur. Næstu tónleikarnir okkar á Íslandi verða nokkrir off-venue tónleikar á Iceland Airwaves, þar á meðal spennandi tónleikar á ION hóteli þann 8. nóvember,“ segir Brynhildur glöð í bragði en myndband við lag Brynhildar er nú í þriðja sæti á vefsíðunni The Independent Music Source.