Fótbolti

Þriðja tapið í röð hjá Óla Kristjáns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Vísir/Daníel
Það gengur ekki vel þessa dagana hjá Ólafi Kristjánssyni og strákunum hans í Nordsjælland en liðið tapaði 2-0 á móti toppliði Midtjylland í kvöld og hefur ekki fengið eitt einasta stig í síðustu þremur leikjum.

Nordsjælland-liðið spilaði manni færri síðustu 34 mínútur leiksins og Midtjylland skoraði bæði mörkin sín eftir að liðið varð manni fleiri.

Pione Sisto skoraði bæði mörk Midtjylland á 57. og 73. mínútu en Nordsjælland missti króatíska miðjumanninn Mario Ticinovic af velli með rautt spjald á 56. mínútu.

Rúnar Alex Rúnarsson sat allan tímann á bekknum en hann er varamarkvörður David Jensen. Eyjólfur Héðinsson er meiddur og var ekki í leikmannahópi Midtjylland.

Þrátt fyrir stigaleysi í síðustu þremur leikjum þá er Nordsjælland enn í fjórða sæti deildarinnar nú 11 stigum á eftir toppliði Midtjylland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×