Fótbolti

Rodgers: Lineker var aldrei knattspyrnustjóri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
vísir/getty
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, gaf lítið fyrir gagnrýni sjónvarpsmannsins Gary Lineker sem sagði Rodgers hafa kastað inn hvíta handklæðinu með liðsuppstillingu sinni í gær.

Rodgers gerði sjö breytingar á liði sínu fyrir leik þess gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær. Real vann þó aðeins nauman 1-0 sigur á þeim ensku með marki Karim Benzema.

„Ég ber virðingu fyrir Gary. Hann var leikmaður í hæsta gæðaflokki en hann hefur aldrei verið knattspyrnustjóri og veit ekki hvað maður þarf að glíma við á æfingum og skipulagningu,“ sagði Rodgers við enska fjölmiðla í gær.

„Þetta var langt frá því að kasta inn hvíta handklæðinu. Cristiano Ronaldo hafði skorað í ellefu leikjum í röð og mínir menn voru félaginu til sóma. Ég held að frammistaðan tali sínu máli.“

„Ég læt gagnrýnina ekki fara í taugarnar á mér. Þetta er það sem gerist og maður verður sem knattspyrnustjóri að taka við henni. Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af mínum leikmönnum.“


Tengdar fréttir

Rodgers: Ég vissi hvað ég var að gera

Margir sökuðu Brendan Rodgers, stjóra Liverpool, um að kasta inn hvíta handklæðinu fyrir leikinn gegn Real Madrid í kvöld en liðið sem hann valdi fékk aðeins á sig eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×