Handbolti

Kiel ekki í miklum vandræðum með Frisch Auf! í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Vísir/Getty
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar fóru á kostum í kvöld þegar liðið endurheimti toppsætið með fjögurra marka sigri á útivelli á móti Frisch Auf! Göppingen, 29-25, en þarna mættust tvö af þremur efstu liðum deildarinnar.

Kiel náði mest tólf marka forskoti en Alfreð Gíslason þurfti að taka leikhlé sex mínútum fyrir leikslok þegar frábær kafli heimamanna kom muninum niður í sex mörk. Munurinn varð síðan á endanum bara fjögur mörk.

Aron Pálmarsson og Filip Jícha voru ekki með Kiel í kvöld en það kom ekki að sök því yfirburðirnir voru miklir frá fyrstu mínútu.

Króatinn Domagoj Duvnjak var markahæstur hjá liði Kiel með níu mörk en Marko Vujin kom næstur með sjö mörk.

Göppingen hefur líklega komið allra liða mest á óvart í deildinni í vetur en liðið var fyrir leikinn í þriðja sæti með 20 stig eða aðeins fjórum minna en topplið Löwen og Kiel.

Magnus Andersson, sænskur þjálfari liðsins, fann hinsvegar fá svör við leik Kiel í kvöld. Kiel komst í 10-3 í upphafi leiks og var með 18-9 forystu í hálfleik. Domagoj Duvnjak skoraði fimm mörk í fyrri hálfleiknum og Marko Vujin var með fjögur.

Kiel-liðið komst mest tólf mörkum yfir, 27-15, en heimamenn í Frisch Auf! náðu aðeins að laga stöðuna í lok leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×