Handbolti

Ljónin stungu af í seinni hálfleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Petersson.
Alexander Petersson. Vísir/Getty
Rhein-Neckar Löwen vann öruggan sjö marka sigur á Wetzlar, 27-20, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og náði efsta sæti deildarinnar í að minnsta kosti rúman klukkutíma.

Löwen var með frumkvæðið nær allan leikinn en stakk ekki af fyrr en í seinni hálfleiknum en þetta var fjórði deildarsigur liðsins í röð.

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen-liðið en Uwe Gensheimer var markahæstur með átta mörk. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað.

Wetzlar komst í 3-1 í upphafi leiks en Löwen breytti stöðunni úr 3-4 í 7-4 og tók með því frumkvæðið í leiknum. Löwen var 15-12 yfir í hálflek en stakk síðan af í upphafi seinni hálfleiksins.

Alexander Petersson kom Löwen fjórum mörkum yfir með fyrsta marki seinni hálfleiksins og Alexander átti líka stoðsendingarnar þegar Uwe Gensheimer og Patrick Groetzki komu Ljónunum í 18-13.

Rhein-Neckar Löwen stakk Wetzlar af í framhaldinu og vann auðveldan sigur sem skilaði liðinu tveggja stiga forskoti á Kiel á toppnum. Kiel á leik inni seinna í kvöld og getur endurheimt toppsætið með sigri þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×