Fótbolti

Jón Guðni bestur hjá Sundsvall í sumar | "Bar liðið á herðum sér"

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrirsögnin í Sundsvalls Tidning.
Fyrirsögnin í Sundsvalls Tidning. Mynd/Sundsvalls Tidning
Jón Guðni Fjóluson, íslenski miðvörðurinn hjá sænska félaginu Sundsvall, átti flott tímabil í sænsku b-deildinni og hann var kosinn besti leikmaður tímabilsins hjá staðarblaðinu Sundsvalls Tidning.

Sundsvall tryggði sér sæti í sænsku úrvalsdeildinni með því að ná öðru sæti í b-deildinni en bæði Sundsvall og Hammarby fengu 61 stig í ár. Hammarby var með miklu betri markatölu og vann deildina.

Í fyrirsögninni um besta leikmann ársins segir Sundsvalls Tidning að Jón Guðni Fjóluson hafi borið GIF-liðið á herðum sér. Hann var kletturinn í vörn Sundsvall að mati blaðsins.

Jón Guðni Fjóluson fékk 3,07 í meðaleinkunn en hann spilaði 29 af 30 leikjum liðsins. Annar íslenskur leikmaður, Rúnar Már Sigurjónsson, stóð sig einnig vel og varð þriðji með 3,00 í meðaleinkunn í 28 leikjum.

Rúnar Már var fimm sinnum valinn bestur á vellinum hjá Sundsvalls Tidning og var þar efstur ásamt tveimur öðrum. Jón Guðni Fjóluson var aldrei valinn bestur á vellinum en spilaði mjög jafnt og gott tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×