Handbolti

Ljónin gerðu góða ferð til Montpellier

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander skilaði þremur mörkum í sigri Löwen í kvöld.
Alexander skilaði þremur mörkum í sigri Löwen í kvöld. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen vann frábæran útisigur á franska liðinu Montpellier í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Lokatölur 29-33, Löwen í vil.

Þýska liðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi jafnan með 4-6 mörkum.

Staðan í hálfleik var 14-18 og þann mun tókst Frökkunum aldrei að brúa.

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen, en Uwe Gensheimer var þeirra markahæstur með sjö mörk. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað í kvöld.

Slóvenski hornamaðurinn Dragan Gajic skoraði mest fyrir Montpellier, eða átta mörk.

Eftir sigurinn er Löwen í 3. sæti C-riðils með átta stig eftir sjö umferðir, en Montpellier er í sætinu fyrir neðan með sex stig. Ungverska stórliðið Veszprem vermir toppsæti riðilsins með 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×