Handbolti

Guðjón Valur í liði umferðarinnar í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Stefán
Þetta var góð helgi fyrir Guðjón Val Sigurðsson, fyrirliða íslenska handboltalandsliðsins og leikmann spænska stórliðsins Barcelona. Íslenska landsliðið komst inn á HM í Katar á föstudaginn og í morgun var Guðjón Valur síðan valinn í lið umferðarinnar í Meistaradeildinni.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði níu mörk í sigri Barcelona á þýska liðinu Flensburg-Handewitt og hann var kosinn besti vinstri hornamaðurinn í síðustu umferð Meistaradeildarinnar. Guðjón Valur er eini leikmaður Börsunga í liðinu.

Þetta var besti leikur Guðjóns Vals með Barcelona í Meistaradeildinni þegar litið er á markaskor en hann hafði mest áður skorað átta mörk í sigri á Besiktas. Guðjón Valur hefur skorað 26 mörk í 6 leikjum eða 4,3 mörk að meðaltali í leik.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir leikmenn í liði umferðarinnar sem og myndband á myndbandasíðu Meistaradeildarinnar þar sem að það má sjá nokkur flott mörk með okkar manni.

Lið umferðarinnar í Meistaradeildinni:  

Vinstri hornamaður: Gudjon Valur Sigurdsson, FC Barcelona

Vinstri skytta: Naumce Mojsovski, HC Metalurg

Leikstjórnandi: Mikkel Hansen, PSG Handball

Hægri skytta: Christian Zeitz, MKB Veszprém

Hægri hornamaður: Dragan Gajic, Montpellier

Línumaður: Rastko Stojkovic, HC Meshkov Brest

Markvörður: Jose Manuel Sierra, Pick-Szeged




Fleiri fréttir

Sjá meira


×