Golf

Henrik Stenson í kunnuglegri stöðu í Dubai

Stenson leiðir eftir tvo hringi.
Stenson leiðir eftir tvo hringi. AP/Getty
Svíinn Henrik Stenson kann greinilega vel við sig í Dubai en hann er í forystu á DP World Championship mótinu sem fram fer á Jumeirah vellinum.

Stenson, sem sigraði í mótinu í fyrra með sex högga mun, er á tíu höggum undir pari eftir fyrstu tvo hringina eftir að hafa leikið á 66 höggum í dag eða sex undir pari. Hann á tvö högg á næstu menn sem eru þeir Danny Willett, Richie Ramsey og sjálfur Rory Mcilroy en þeir eru allir á átta höggum undir pari eftir hringina tvo.

Margir sterkir kylfingar eru síðan á fimm, sex eða sjö höggum undir pari og því má Stenson búast við harðri baráttu um helgina ef hann ætlar að verja titilinn.

Tilþrif dagsins í dag átti þó Írinn Shane Lowry en hann leiddi mótið eftir fyrsta hring. Hann fór holu í höggi á 13. holu sem er 190 metra löng en hann lék ekki eins vel og í gær og kom inn á 71 höggi eða einu undir pari. Hann deilir fimmta sætinu með nokkrum öðrum kylfingum á sjö undir pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×