Sunna Jónsdóttir og stöllur hennar í íslenska kvennalandsliðinu í handbolta unnu það ítalska öðru sinni í undankeppni HM 2015 í Laugardalshöll í dag.
Sunna var að venju föst fyrir í vörninni og skoraði auk þess eitt mark í 27-21 sigri Íslands.
„Það mikilvægasta var að við fengum sigur úr þessum leik. Við lögðum upp með það sama og úti á Ítalíu,“ sagði Sunna í viðtali við Vísi eftir leik, en viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
„Varnarleikurinn var gekk vel allan leikinn og Florentina (Stanciu) var frábær í markinu. Við vorum kannski fullbráðar á okkur þegar við unnum boltann og töpuðum honum of oft.
„En það var jákvætt að fá sigur í dag,“ sagði Sunna, en með sigrinum er Ísland komið í dauðafæri á að komast í umspil um sæti á HM í Danmörku.
Íslenska liðið þarf aðeins eitt stig í tveimur leikjum gegn Makedóníu til að komast í umspilsleikina tvo, en Makedónía tapaði báðum leikjum sínum gegn Ítalíu.
„Okkur vantar bara eitt stig í viðbótar til að komast upp úr forkeppninni og við höfum tvo leiki til þess,“ sagði Sunna að lokum.
