Handbolti

Aðeins 2 af 18 spá því að Þórir og norsku stelpurnar vinni gullið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. Vísir/AFP
Norska kvennalandsliðið í handbolta er á leiðinni á EM í handbolta en liðið hefur verið afar sigursælt undir stjórn Íslendingsins Þóris Hergeirssonar. Norðmenn búast þó ekki við að Þórir og norsku stelpurnar vinni gull að þessu sinni.

Norska kvennalandsliðið hefur unnið fjögur af síðustu fimm Evrópumótum kvenna og spilað alla úrslitaleiki á EM frá og með Evrópumótinu í Danmörku 2002 eða sex í röð.

Norska blaðið Verdens Gang fékk átján handboltasérfræðinga til að spá fyrir um gengi norska liðsins á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Króatíu sem hefst nú um helgina.

Aðeins tveir af þessum átján spá því að Norðmenn vinni gullið en það eru þau Ole Gustav Gjekstad og Tonje Nöstvold.

Þórir Hergeirsson hefur þurft að byggja upp nýtt landslið en átta af fjórtán leikmönnum gulliðsins á ÓL í London 2012 eru ekki lengur með liðinu.

Tveir af þessum átján hafa litla trú á norska liðinu og telja að liðið komist ekki í undanúrslit en það gerðist á HM í Serbíu í fyrra þegar norsku stelpurnar enduðu í fimmta sæti.

Flestir spekinganna búast hinsvegar við því að norska liðið komist í undanúrslit á sjöunda Evrópumótinu í röð og vinni til verðlauna.

Noregur er með Danmörku í riðli á EM en danska liðið vann brons á HM í fyrra og er með gríðarlega öflugt lið á þessu móti. Fyrsti leikur norska liðsins er við Rúmeníu á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×