Borussia Dortmund er í slæmum málum í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta en liðið hefur aðeins náð í ellefu stig í fyrstu þrettán leikjum tímabilsins og situr fyrir vikið í botnsæti deildarinnar.
Á sama tíma hefur Borussia Dortmund gengið vel í Meistaradeildinni þar sem liðið hefur þegar tryggt sér sæti í sextán liða úrslitunum.
Dortmund vann fjóra fyrstu leiki sína í Meistaradeildinni en tapaði reyndar síðasta leik sínum á móti Arsenal. Dortmund var eitt fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í útsláttarkeppninni.
Borussia Dortmund er því með tólf stig í fimm leikjum í Meistaradeildinni á leiktíðinni eða stigi meira en liðið hefur náð að safna í átta fleiri leikjum í deildinni heima fyrir.
Borussia Dortmund vann tvo af fyrstu þremur deildarleikjum sínum en hefur síðan aðeins unnið einn leik og náð í fimm stig af 30 mögulegum.
Síðan liðið spilaði fyrsta leikinn sinn í Meistaradeildinni 16. september hefur Dortmund aðeins unnið einn af leik af tíu í þýsku deildinni og bara náð að skora átta mörk.
Fjórir af fimm síðustu sigurleikjum Dortmund-liðsins og 13 af 21 marki liðsins frá 15. september hafa því komið í Meistaradeildinni.
Borussia Dortmund í þýsku deildinni 2014-15:
13 leikir
3 sigrar, 2 jafntefli, 8 töp
Markatalan: -7 (14-21)
11 stig
Borussia Dortmund í Meistaradeildinni 2014-15:
5 leikir
4 sigrar, 0 jafntefli, 1 tap
Markatalan: +10 (13-3)
12 stig
