Handbolti

Dönsku stelpurnar töpuðu stórt og misstu af undanúrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/AP
Það verða Noregur og Spánn sem komast upp úr milliriðli 1 á Evrópumótinu í handbolta kvenna sem stendur nú yfir í Ungverjalandi og Króatíu. Spænska liðið tryggði sér sæti í undanúrslitunum með sjö marka sigri á Dönum, 29-22, í hreinum úrslitaleik á móti Danmörku.

Dönsku stelpurnar áttu engin svör við sterku liði Spánverja sem síðan hreinlega keyrði yfir danska liðið í seinni hálfleiknum. Spánn var 15-12 yfir í hálfleik en breytti síðan stöðunni úr 17-15 í 28-18 með frábærum sextán mínútna kafla sem liðið vann 11-3.

Line Anna Ryborg Jörgensen, fyrirliði danska liðsins, var yfirburðarmaður í liðinu með sjö mörk úr ellefu skotum en restin af liðinu náði sér engan veginn á strik.

Alexandrina Cabral skoraði sex mörk úr sjö skotum fyrir spænska liðið og Beatriz Fernández var með fimm mörk en besti maður liðsins var markvörðurinn Silvia Navarro.

Þetta eru mikil vonbrigði fyrir danska liðið sem vann bronsverðlaun á HM í fyrra og ætlaði sér stóra hluti á þessu móti. Liðið vann meðal annars Noreg á æfingamóti fyrir EM en náði ekki að fylgja því eftir á Evrópumótinu.

Dönsku stelpurnar voru næstum því búnar að missa Rúmeníu upp fyrir sig sem hefði þýdd að þær spiluðu ekki um fimmta sætið en danska liðið skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og er því enn ofar á markatölu.

Heimastúlkur í Ungverjalandi geta reyndar komist í leikinn um fimmta sætið á kostnað danska liðsins en þá þurfa þær að vinna Noreg á eftir. Norska liðið hefur unnið fimm fyrstu leiki sína á mótinu og er þegar búið að vinna milliriðilinn.

Evrópumeistarar Svartfjallalands eru komnar áfram í undanúrslitin eftir 30-29 sigur á Svíum fyrr í kvöld en Svíar þurfa að bíða eftir úrslitum úr leik Hollands og Frakklands í kvöld. Það þarf þó mikið að gerast til þess að Hollendingar nái undanúrslitasætinu af sænska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×