Handbolti

Evrópumeistararnir á toppinn en breytist það í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katarina Bulatović.
Katarina Bulatović. Vísir/AFP
Svartfjallaland, ríkjandi Evrópumeistari, vann fyrsta leik dagsins á Evrópumótinu í handbolta kvenna sem fram fer þessa dagana í Ungverjalandi og Króatíu. Svartfjallaland vann 31-27 sigur á Hollandi í mikilvægum leik í baráttunni um sæti í undanúrslitum keppninnar.

Hin öfluga Katarina Bulatović skoraði tíu mörk í leiknum en hún skoraði fimm mörk á lokakaflanum sem Svartfjallaland vann 8-4.

Svartfjallaland hefur þar með sex stig eftir fjóra leiki, einu stigi meira en Svíþjóð (3 leikir) og Holland (4 leikir) og tveimur stigum meira en Frakkland (3 leikir).

Bæði Svíþjóð og Frakkland eiga leiki seinna í dag á móti þjóðum sem eiga ekki lengur möguleika á því að komast í undanúrslitin. Svíar mæta fyrst Slóvakíu og strax á eftir spilar Frakkland síðan við Þýskaland.

Með því að vinna sína leiki þá komast bæði Svíþjóð og Frakkland upp fyrir Svartfjallaland en í lokaumferðinni mætast einmitt Svíþjóð og Svartfjallaland í mögulegum úrslitaleik um sæti í undanúrslitum EM.

Svartfjallaland varð Evrópumeistari fyrir tveimur árum eftir að hafa unnið Þóri Hergeirsson og stelpurnar hans í framlengdum úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×