Handbolti

Stórtap hjá Bergischer | Íslendingarnir öflugir hjá Aue

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björgvin Páll varði tólf skot í marki Bergischer í kvöld.
Björgvin Páll varði tólf skot í marki Bergischer í kvöld. vísir/getty
Arnór Þór Gunnarsson skoraði eitt mark þegar Bergischer beið afhroð fyrir Melsungen á útivelli í þýsku Bundesligunni í handbolta í dag.

Lokatölur urðu 40-28, en Melsungen var 11 mörkum yfir í leikhléi, 23-12.

Björgvin Páll Gústavsson varði tólf skot í marki Bergischer sem er í 13. sæti deildarinnar með 15 stig.

Friesenheim bar sigurorð af Erlangen, 27-26, á heimavelli. Erlangen, sem vann óvæntan sigur á Rhein-Neckar Löwen í síðustu umferð, var yfir í hálfleik, 11-13.

Sigurbergur Sveinsson skoraði eitt mark fyrir Erlangen og var tvívegis rekinn af leikvelli.

Gunnar Steinn Jónsson var ekki á meðal markaskorara Gummersbach sem vann eins marks sigur, 29-30, á TuS N-Lübbecke á útivelli.

Austurríski landsliðsmaðurinn Raul Santos var markahæstur í liði Gummersbach með tíu mörk, en Drago Vukovic var atkvæðamestur hjá heimamönnum með átta mörk.

Íslendingarnir í Aue í þýsku B-deildinni skoruðu tíu af 28 mörkum liðsins í jafntefli gegn Hamm-Westfalen.

Árni Þór Sigtryggsson og Hörður Sigþórsson skoruðu fjögur mörk hvor og Sigtryggur Rúnarsson, sonur Rúnars Sigtryggssonar þjálfara Aue, skilaði tveimur mörkum.

Bjarki Már Gunnarsson og Sveinbjörn Pétursson leika einnig með Aue sem situr í 10. sæti deildarinnar.

Þá skoraði Fannar Friðgeirsson þrjú mörk fyrir Grosswallstadt sem tapaði með fimm mörkum, 31-26, fyrir Bad Schwartau á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×