Real Madrid vann Almeria, 4-1, í fyrsta leik 15. umferðar spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu í kvöld og er komið í snemmbúið jólafrí í deildinni.
Isco kom Real yfir á 34. mínútu með fallegu marki úr teignum, en heimamenn jöfnuðu metin með enn fallegra marki fimm mínútum síðar.
Það gerði Verza með bylmingsskoti fyrir utan teig, en hann smellhitti boltann og skotið óverjandi fyrir Iker Casillas í markinu.
Gareth Bale kom Real Madrid í 2-1 fyrir lok fyrri hálfleiks og á síðustu 10 mínútum leiksins skoraði Cristiano Ronaldo tvívegis. Lokatölur, 4-1. Real efst í deildinni með 39 stig, fimm stigum meira en Barcelona sem á leik til góða.
Real spilar ekki fleiri deildarleiki fyrir jól, en það fer nú á HM félagsliða eftir að vinna tuttugu leiki í röð í öllum keppnum.

