Handbolti

Hafa varðveitt drápseðlið frá gömlu góðu hvaladögunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/AP
Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans í norska kvennalandsliðinu koma með fullt hús inn í milliriðilinn á EM í handbolta eftir 27-21 sigur á Danmörku í lokaumferð riðlakeppninnar í gær.

Danir unnu brons á HM í fyrra og ætluðu sér stóra hluti á EM. Liðið fer hinsvegar bara með eitt stig inn í milliriðilinn eða þremur stigum minna en bæði Spánn og Noregur og það verður því mjög erfitt fyrir þær dönsku að komast í undanúrslitin.

Blaðamaður danska blaðsins Ekstra Bladet er bjartsýnn fyrir hönd Þóris og leikmanna hans í norska kvennalandsliðinu og telur að þarna sé eitt sigurstranglegasta lið keppninnar á ferðinni. Hann nefnir sérstaklega drápseðli liðsins sem hann telur að Norðmenn hafi varðveitt frá gömlu góðu hvaladögunum.

„Þær keyra hnífanna í andstæðinginn þegar hann er að berjast við að ná andanum og hefur misst vonina," skrifar blaðamaður Ekstra Bladet í grein sinni um leikinn.

Norsku stelpurnar keyrðu hreinlega yfir þær dönsku í seinni hálfleiknum sem Noregur vann 15-8. Danska liðið var 13-10 yfir í leiknum þegar rúmar tvær mínútur voru til hálfleiks en norska liðið vann hinsvegar næstu 27 mínútur 14-5 og gerði út um leikinn.

Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×