Handbolti

Þórir búinn að missa aðalmarkvörðinn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kari Aalvik Grimsbö.
Kari Aalvik Grimsbö. Vísir/AFP
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins þurfti að gera breytingar á hópnum sínum strax í upphafi Evrópumótsins eftir að norska liðið varð fyrir áfalli strax í fyrsta leik.

Markvörðurinn Kari Aalvik Grimsbö reif liðþófa í hné í sigri á Rúmeníu og verður ekki meira með á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Króatíu.

Grimsbö tók við aðalmarkvarðarstöðunni af Katrine Lunde Haraldsen, sem er í barnseignarfríi á þessu Evrópumóti. Þórir er því án tveggja bestu markvarða sinna.

Grimsbö varði 48 prósent skotanna sem á hana komu (12 af 25) í þessum eina leik sínum á EM 2014 en hún er eins og er efst á listanum yfir bestu markvörsluna á Evrópumótinu.

„Ég fann fyrir þessu fyrst í upphafi leiksins og svo varð þetta alltaf verra og verra. Ég var búinn að leggja mikið á mig til að vera klár í þetta mót og þetta er því mjög svekkjandi," sagði Kari Aalvik Grimsbö við norska blaðamenn þegar hún hitti þá á hækjum eftir sigur Norðmanna í gær.

Silje Solberg tók stöðu Grimsbö í markinu og er með 42 prósent markvörslu í fyrstu tveimur leikjunum en norsku stelpurnar eru búnar að vinna örugga sigra á Rúmeníu (27-19) og Úkraínu (34-23).

Þórir Hergeirsson er búinn að kalla í annan markvörð en það er Emily Stang Sando. Sando er einmitt varamarkvörður Kari Aalvik Grimsbö hjá danska liðinu Esbjerg.

Næsti leikur norska liðsins er á móti Danmörku á morgun en þetta er úrslitaleikur um sigurinn í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×