Handbolti

Alexander sá rautt þegar Löwen marði Hamburg

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Alexander í baráttu
Alexander í baráttu vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen minnkaði forskot Kiel á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta niður í tvö stig þegar liðið marði Hamburg 26-25 á útivelli í kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Löwen var tveimur mörkum yfir í hálfleik 14-12 en Hamburg náði þriggja marka forystu 21-18 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.

Löwen jafnaði metin og komst yfir 23-22 þegar rúmlega átta mínútu voru eftir af leiknum en skömmu seinna fékk Alexander Petersson að líta rauða spjaldið.

Löwen náði tveggja marka forystu þegar rúm mínúta var eftir af leiknum og skoraði Hamburg síðasta mark leiksins þegar 14 sekúndur voru til leiksloka.

Löwen náði að halda boltanum þar til leiktíminn rann út og fagnaði tveimur mikilvægum stigum í toppbaráttunni því liðið er nú tveimur stigum á eftir Kiel og á leik til góða. Hamburg er í áttunda sæti deildarinnar.

Alexander Petersson skoraði 4 mörk fyrir Löwen en Kim Ekdahl du Rietz var markahæstur með 6 mörk. Patrick Groetzki skoraði 4 mörk líkt og Alexander. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði ekki fyrir Löwen.

Alexander Feld skoraði 7 mörk fyrir Hamburg og Kentin Mahé 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×