Finnur segir fáránlegt að ekki megi flytja inn lífrænan kjúkling sem mikið sé spurt um nema á „ofurtollum“. Hvað varðar ostana segir Finnur að það sé vaxandi eftirspurn eftir þeim.

Í bréfi Haga til ráðuneytisins færir fyrirtækið þau rök fyrir beiðninni að framleiðsla á innlendum buffala-, geita- og ærmjólkurostum sé ýmist engin eða hverfandi og anni þar af leiðandi ekki eftirspurn. Á það hafi íslenskir geitabændur meðal annars bent. Það sé því viðvarandi skortur á umræddum vörum sem eðlilegt sé að ráðuneytið bregðist við með því að ákveða opinn tollkvóta án gjalda. Slíkt sé í samræmi við heimildir ráðuneytisins og fyrri ákvarðanir þegar skortur hefur verið á öðrum landbúnaðarvörum.
Finnur nefnir í því sambandi að þegar skortur hafi verið á nautakjöti hér á landi hafi það verið flutt inn tímabundið án tolla. Þá sé skammt um liðið síðan Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði fengu að flytja inn ótollað smjör frá Írlandi með þeim rökum að innlend framleiðsla gæti ekki annað eftirspurn eftir rjóma og smjöri í desember.
Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, staðfestir að Ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara hafi borist beiðni Haga.
„Það er reiknað með því að það verði fundur í nefndinni í lok vikunnar og þangað til er ekkert meira um málið að segja,“ segir Þórir.