Handbolti

Aron Rafn: Aldrei verið gripinn af stuðningsmönnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson stendur sig vel í Svíþjóð.
Aron Rafn Eðvarðsson stendur sig vel í Svíþjóð. Fréttablaðið/EPA
„Við byrjuðum að spila meira sem lið,“ segir Aron Rafn Eðvarðsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, í viðtali við Fréttablaðið um ástæðu þess að lið hans, Guif frá Eskilstuna, í sænsku úrvalsdeildinni hefur tekið á jafnmikinn sprett og raun ber vitni. Liðið hefur unnið ellefu leiki af tólf eftir EM-hléið, er á toppnum og getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri í lokaumferðinni.

„Við erum með ungt lið. Þegar ég er einn af elstu mönnum liðsins, 25 ára, þá er liðið ekki gamalt. Okkur vantaði stöðugleika til að byrja með. Við vorum að vinna leiki með tíu mörkum og tapa svo næsta kannski með átta.“

Haukamaðurinn er á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku og hann skammast sín ekki fyrir að viðurkenna að hafa gengið illa að fóta sig til að byrja með.

Erfitt að átta sig á hlutunum í byrjun

„Það var ýmislegt sem ég gekk í gegnum. Maður var kominn í nýtt land og að læra nýtt tungumál auk þess sem maður var að læra nýja hluti frá markmannsþjálfaranum. Svo er sænski boltinn svo ótrúlega hraður. Ég átti erfitt með að átta mig á hlutunum til að byrja með en ég þurfti bara að taka eitt skref afturábak til að taka tvö skref áfram,“ segir Aron sem hefur vaxið með hverjum leiknum og varði t.a.m. þrjú víti í síðasta leik.

„Þetta datt aðeins í gang í desember þar sem ég var valinn maður leiksins þrisvar í röð. Í heildina er ég búinn að vera sáttur við mína frammistöðu en það koma alltaf leikir þar sem maður er ekki upp á sitt besta. Þeir hafa verið kannski aðeins of margir fyrir minn smekk en ég nýt fulls trausts hjá Kristjáni [Andréssyni] þjálfara. Hann keypti mig til að vera númer eitt og vill að ég spili. Það er gott að vita að manni sé ekki kippt út af þótt maður fái á sig nokkur drullumörk,“ segir Aron Rafn.

Geta orðið meistarar

Landsliðsmarkvörðurinn nýtur leiðsagnar Finnans Jans Ekmans sem búið hefur í Svíþjóð nær alla sína ævi og var einn besti markvörður sænsku deildarinnar um árabil.

„Hann er góður vinur Tomasar Svensson. Hann er alveg frábær markmannsþjálfari sem sér ásamt öðrum manni, Tomasi Forsberg, um alla grunnþjálfun markmanna í yngri flokkum Svíþjóðar,“ segir Aron Rafn sem hefur bætt sig undir handleiðslu Svíans.

Aron er spenntur fyrir úrslitakeppninni og telur Guif geta farið alla leið. „Þótt við séum með ungt lið erum við líka með gott lið. Ég hef fulla trú á því að við getum allavega komist í úrslitaleikinn.“

Eskilstuna er 100.000 manna borg á austurströnd Svíþjóðar. Aron segir þar gott að búa enda stutt til Stokkhólms auk þess sem hann eyðir miklum tíma með vini sínum úr Haukum og línumanni Guif, Heimi Óla Heimissyni.

„Maður eyðir kannski of miklum tíma með honum. Maður væri kannski kominn aðeins betur inn í sænskuna ef við værum ekki alltaf saman,“ segir Aron og hlær við.

Leikmennirnir vinsælir

Hann segir handboltaliðið það stærsta í bænum og leikmennina vinsæla. Það er til Twitter-síða þar sem fólk í borginni hendir inn myndum af leikmönnum Guif sjáist þeir í bænum, einna helst ef þeir eru jafnvel að stelast í bjór. „Ég hef aldrei verið gripinn enda verið mjög lélegur í þessu. Meira að segja í fríunum sem ég hef fengið hef ég nýtt tímann frekar í að sofa,“ segir Aron Rafn Eðvarðsson sem ætlar sér að vera áfram hjá Guif á næstu leiktíð.

„Ég fer ekki fet í sumar. Hér verð ég allavega í ár til viðbótar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×