Handbolti

Vil sjá stelpurnar mæta brjálaðar til leiks

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikmaður landsliðsins.
Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikmaður landsliðsins.
Það er stórleikur hjá stelpunum okkar í kvöld er þær taka á móti gríðarsterku liði Frakka í undankeppni EM. Þetta er þriðji leikur liðanna í riðlinum en Frakkar eru á toppnum með fullt hús stiga og Ísland í öðru sæti með tvö stig. Ísland er búið að vinna einn leik og tapa einum.

Tapið kom gegn Slóvakíu ytra, 19-18, en þetta slóvakíska lið tapaði fyrir Frökkum, 25-18. Frakkar eru klárlega með sterkasta liðið í riðlinum.

„Það er ekkert launungarmál að Frakkar eru fyrirfram með sterkasta liðið í þessum riðli. Þetta er hávaxið og líkamlega sterkt lið sem er gríðarlega erfitt að glíma við,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari.

Ágúst getur ekki teflt fram sínu sterkasta liði þar sem markvörðurinn Florentina Stanciu og hornamaðurinn Hanna G. Stefánsdóttir drógu sig úr hópnum vegna meiðsla. Í þeirra stað komu Dröfn Haraldsdóttir og Marthe Sördal.

„Við erum búin að missa margar stelpur úr liðinu síðustu vikur og mánuði. Fyrir utan þessar tvær þá vantar líka Guðnýjú Jenný, Stellu Sigurðardóttur, Rut Jónsdóttur og Ástu Birnu Gunnarsdóttur. Svo er Rakel Dögg Bragadóttir hætt vegna meiðsla.“

Þó svo það verði við ramman reip að draga hjá stelpunum þá ætlar liðið að selja sig dýrt.

„Við verðum að spila mjög grimma vörn. Reyna að vinna boltann og refsa þeim því þær eru seinar til baka. Í sókninni verðum við að spila skynsamlega og klára sóknirnar okkar svo við fáum ekki ódýr mörk í andlitið. Frakkar eru auðvitað sigurstranglegri en ég hef fulla trú á því að við getum strítt þeim og jafnvel gott betur,“ segir þjálfarinn kokhraustur.

Markmið landsliðsins er engu að síður sem fyrr að ná öðru sæti riðilsins. „Það eru allir að horfa á leikinn gegn Slóvakíu í lokaumferðinni og líta á hann sem úrslitaleik. Það má ekki á þessum tímapunkti enda á enn eftir að spila mikinn handbolta og ýmislegt getur gerst. Ég vil sjá stelpurnar mæta brjálaðar til leiks og gefa allt sem þær eiga. Þá er aldrei að vita hvað gerist.“

Kvennalandsliðið hefur hingað til spilað sína heimaleiki í Vodafonehöllinni en að þessu sinni spila þær í Laugardalshöll og hefst leikurinn klukkan 19.30.

„Það er alltaf sjarmi yfir því að spila í Höllinni og stelpurnar eru spenntar. Ég vona að við fáum mikinn stuðning því það veitir ekki af.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×