Handbolti

Bóndinn mættur í Bundesliguna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Heiðmar ásamt Till Hermann (17) og Cedric Post, tveimur leikmönnum sínum úr 2. flokki félagsins, en allir spiluðu þeir gegn Lemgo á miðvikudaginn.
Heiðmar ásamt Till Hermann (17) og Cedric Post, tveimur leikmönnum sínum úr 2. flokki félagsins, en allir spiluðu þeir gegn Lemgo á miðvikudaginn. mynd/heimasíða hannover
„Tilfinningin er svipuð og þegar ég var sextán ára í fótboltanum hjá Þór undir stjórn Sigga Lár. Þá tjáði hann mér að ég væri í liðinu á móti KR. Ég er með sama fiðring núna,“ sagði handknattleikskappinn Heiðmar Felixson, sem reif óvænt fram skóna á miðvikudag og lék þá með Hannover-Burgdorf í þýsku úrvalsdeildinni. Heiðmar skoraði tvö mörk í endurkomu sinni er liðið tapaði fyrir Lemgo, 29-27.

Hinn 37 ára gamli Heiðmar spilaði síðast alvöruhandboltaleik fyrir fjórum árum. Það kemur ekki til að af góðu að hann er byrjaður að spila á ný. Rúnar Kárason sleit krossband á dögunum og hin örvhenta skytta félagsins er líka meidd.

„Ég er eina örvhenta skyttan sem félagið á núna. Ég vænti þess að klára tímabilið með liðinu eins og staðan er núna.“

Líklega bara 55 mínútna maður

Þjálfari Hannover sótti vatnið ekki yfir lækinn er hann bað Heiðmar um að spila. Heiðmar er yfirþjálfari yngri flokka félagsins og var leikmaður félagsins um árabil.

„Þjálfarinn spurði mig í hvernig standi ég væri. Ég sagði honum að ég gæti væntanlega ekki spilað 60 mínútur í leik. Næ væntanlega ekki meira en 55 mínútum,“ sagði Heiðmar léttur.

„Ég hef haldið mér vel við og er í fínu formi. Spila einstaka leiki fyrir önnur lið félagsins í neðri deildunum. Ég æfi ekki beint mikið en held ég kunni þetta alveg enn þá. Ég er búinn að vera brosandi alla vikuna enda frábært að fá óvænt aftur svona tækifæri þó svo það komi ekki til af góðu. Ég ætla að reyna að njóta þess.“

Hannover-Burgdorf er með gríðarlega mikla starfsemi. Lið í fjórum deildum og svo með þrjátíu yngri flokka. Eins og áður segir er Heiðmar yfirþjálfari allra yngri flokkanna og svo er hann aðalþjálfari hjá 2. flokki félagsins.

Með hesta og hænur

Hann hefur komið sér vel fyrir í Þýskalandi með fjölskyldu sinni á bóndabæ fyrir utan borgina. Sjálfur er hann frá Árskógsströnd þannig að hann kann vel við sveitalífið.

„Það er svakalega fínt. Við erum með hesta og hænur til að mynda. Kartöflugarð og bara nefndu það. Mér finnst fara vel saman að vera bóndi og handboltaþjálfari. Það er oft mikið stress og læti í handboltaheiminum og þá er gott að dunda sér í rólegheitunum við sveitastörfin. Þetta hentar mér fullkomlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×