Hugmyndin á bak við Normcore er einföld. Þeir sem aðhyllast stefnuna passa sig að skera sig ekki úr fjöldanum með því að klæðast hversdagslegum fötum. Þetta fólk er sem sagt í tísku án þess að vera í tísku.
Þetta þýðir þó ekki að Normcore-arar séu ekki hipp og kúl. Þeir klæðast ekki hverju sem er heldur velja Normcore-fatnaðinn af kostgæfni. Það sem flokkast undir Normcore eru meðal annars bolir, flíspeysur, hettupeysur, kakíbuxur, gallabuxur og póló-bolir. Bindi og blússur tilheyra til dæmis ekki Normcore-tískunni. Þá mega fylgismenn Normcore alls ekki klikka á því að vera í hvítum sokkum við opna sandala á tyllidögum.
Fatnaður sem gæti kallast Normcore er fjöldaframleiddur, oftast nær í Asíulöndum, fyrir stórar verslunarkeðjur, svo sem GAP, Jack & Jones og Abercrombie & Fitch.

Ert þú Normcore?
Ef þú svarar meirihluta af eftirfarandi spurningum rétt smellpassar þú í normcore-tískusveifluna:
1. Lítur þú á Barack Obama sem tískutákn?
2. Lítur þú á karakterana í Seinfeld sem tískutákn?
3. Borðar þú franskbrauð oftar en einu sinni í mánuði?
4. Verslar þú í Hagkaup?
5. Gengur þú allajafna með derhúfu?
6. Horfir þú á The Big Bang Theory?
7. Gengur þú í khaki-buxum?
8. Gætirðu hugsað þér að vera í sokkum við opna sandala?
9. Borðar þú unnar kjötvörur eða frosnar, tilbúnar máltíðir?
10. Hlustar þú á U2?

