Íslenski boltinn

Get jafnvel hætt sáttur ef við verðum Íslandsmeistarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Karl Finsen hefur átt gott tímabil með Stjörnunni sem er í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn við FH.
Ólafur Karl Finsen hefur átt gott tímabil með Stjörnunni sem er í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn við FH. vísir/andri marinó
Ólafur Karl Finsen skoraði tvö mörk þegar Stjarnan bar sigurorð af KR með þremur mörkum gegn tveimur á KR-vellinum á sunnudaginn. Hann er leikmaður 18. umferðar Pepsi-deildar karla að mati Fréttablaðsins.

„Við erum ánægðir með sigurinn á sunnudaginn og sumarið í heild,“ sagði Ólafur þegar Fréttablaðið heyrði í honum hljóðið í gær.

Stjörnumenn mættu nokkuð vængbrotnir til leiks gegn KR sem hafði ekki tapað á heimavelli sínum frá því í 16. september 2012.

Dönsku varnarmennirnir Niclas Vemmelund og Martin Rauschenberg voru báðir í banni, auk þess sem fyrirliði liðsins, Michael Præst, er frá út tímabilið vegna meiðsla. Ólafur bar lof á þá sem komu inn í liðið, en Stjarnan endaði leikinn á sunnudaginn með þrjá 19 ára stráka inn á vellinum; Heiðar Ægisson, Þorra Geir Rúnarsson og Jón Arnar Barðdal.

„Við erum með sterkan hóp og það kemur maður í manns stað,“ sagði Ólafur og bætti við: „Allir sem komu inn stóðu sig vel, eins og Heiðar sem spilaði frábærlega í bakverðinum, og svo er Þorri búinn að vera geggjaður á miðjunni eftir að Præst meiddist. Þetta eru frábærir strákar og framtíðin er mjög björt hjá okkur.“

Þótt aldurinn sé ekki að þvælast fyrir Ólafi (sem er fæddur árið 1992) býr hann yfir töluverðri reynslu. Hann gekk til liðs við hollenska liðið AZ Alkmaar árið 2008, en sneri aftur heim í Garðabæinn tveimur árum seinna. Þar hefur Ólafur leikið síðan, fyrir utan eins árs dvöl hjá Selfossi 2012.

Fyrir þessa leiktíð hafði Ólafur skorað tíu mörk í efstu deild, en hann er næstum því búinn að tvöfalda þá tölu í sumar. Ólafur hefur skorað níu mörk í 16 deildarleikjum, auk tveggja marka í Borgunarbikarnum og fimm í forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem Stjörnumenn komust í fjórðu umferð.

Ólafur sagði það hafa verið mikla upplifun að spila gegn Inter á San Siro, þótt úrslitin hefðu ekki verið Garðabæjarliðinu hagstæð (6-0 fyrir Inter):

„Þetta var frábær ferð. Við verðum að sætta okkur við að við áttum ekki séns í þá, en bara það að Stjarnan hafi spilað við Inter á San Siro og 300 Stjörnumenn hafi verið í stúkunni er ótrúlegt. Mér leið eins og mig væri að dreyma. Þetta var ógleymanlegt.“

Stjarnan er enn ósigruð í Pepsi-deildinni, en liðið situr í öðru sæti með 39 stig, tveimur stigum á eftir toppliði FH. Ólafur hefur trú á að það verði framhald á þessu góða gengi:

„Við höfum bullandi trú á við getum unnið titilinn. Við þurfum bara að halda áfram að leggja hart að okkur,“ sagði Ólafur sem segist ekki vera farinn að gæla við atvinnumennskuna:

„Nei, alls ekki. Eina sem ég hugsa um er að vinna Íslandsmeistaratitilinn með Stjörnunni og eftir það get ég jafnvel bara hætt sáttur. Búinn að spila á San Siro og vinna titilinn með uppeldisfélaginu. Ég horfi ekki neitt á atvinnumennskuna. Ég veit ekki hvort löngunin sé nógu mikil. Mér finnst alveg gaman í fótbolta, en ég veit ekki með allt umstangið í kringum leikinn. Þegar þetta er orðin atvinna, er þetta kannski orðið of mikið,“ sagði Ólafur Karl Finsen að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×