Bíó og sjónvarp

„Síðan lentum við í því að gefa þessu fólki eiginhandaráritanir“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Baldvin segir Vonarstræti hafa fengið góðar viðtökur í Toronto.
Baldvin segir Vonarstræti hafa fengið góðar viðtökur í Toronto. vísir/vilhelm
„Þetta var ógeðslega gaman og gekk ótrúlega vel. Ég hefði aldrei búist við því að þetta yrði svona frábært,“ segir leikstjórinn Baldvin Z. Kvikmynd hans, Vonarstræti, eða Life in a Fishbowl eins og hún heitir á ensku, var tekin til sýningar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada sem nú stendur yfir.

Baldvin kom heim til Íslands í gær og er enn í skýjunum yfir viðtökunum á hátíðinni.

„Ég var viðstaddur tvær sýningar og það var troðfullt á þeim báðum. Það var mikið klappað í lokin og eftir þær var langur tími þar sem við svöruðum spurningum áhorfenda. Ég hef oft verið viðstaddur spurningar og svör en hef aldrei lent í því eins og þarna að það var klappað við sum svörin. Þarna var líka eldra fólk en maður er vanur að hitta í bíói og spurningarnar voru þroskaðar og flottar. Síðan lentum við í því að gefa þessu fólki eiginhandaráritanir eftir á og það var mjög gaman,“ segir hann.

Vonarstræti hefur skapað talsvert umtal hið ytra og hefur sýningarrétturinn nú þegar selst til Kanada, Danmerkur og Noregs. Þá eru samningaviðræður í gangi við Bandaríkin, Þýskaland, Sviss og Japan. Baldvin segist hafa fundið vel fyrir þessu umtali í Toronto.

„Við gerum okkur samt ekki vonir um neitt. Það er bara extra frábært að myndin veki umtal.“

Leikstjórinn kunni vel við sig á hátíðinni.

„Það voru allir svo kurteisir og skemmtilegir og allir komnir til að njóta bíómyndanna. Svo er líka gaman að fylgjast með fólkinu sem er að fylgjast með fræga fólkinu. Það kemur með vatnsbrúsa og stóla og er greinilega vel þjálfað í því að sjá fræga fólkið.“

Hera Hilmarsdóttir í hlutverki sínu í Vonarstræti.vísir
Darren Aronofsky bjargaði deginum

Leikstjórinn og Íslandsvinurinn Darren Aronofsky sá Vonarstræti í Toronto og var ekki lengi að tísta jákvæð orð um myndina.

„Frábær mynd frá #Íslandi á @TIFF_NET Vonarstræti. Frábærir, íslenskir leikarar í mynd um líf sem skarast sem var fönguð á tilfinninganæman hátt,“ tísti Darren.

„Þetta tíst bjargaði deginum mínum á þessari hátíð,“ segir Baldvin Z. „Hann hefur sennilega verið á seinni sýningunni en við tókum ekki eftir honum. Hann tvítaði um leið og sýningin var búin og ég er hálffeginn að hafa ekki vitað af honum. Þá hefði ég örugglega verið mjög vandræðalegur eftir á,“ bætir hann við.


Tengdar fréttir

Töfrandi litir í Toronto

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Toronto í Kanada hófst þann 4. september og lýkur 14. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×