Handbolti

Brand: Dagur verður dæmdur af árangrinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiner Brand vill að Þýskaland nái langt á HM í Katar í janúar.
Heiner Brand vill að Þýskaland nái langt á HM í Katar í janúar. fréttablaðið/getty
Heiner Brand, fyrrum landsliðsþjálfari og yfirmaður hjá þýska handknattleikssambandinu, segir að Dagur Sigurðsson verði ekki undanskilinn gagnrýni þegar kemur að frammistöðu þýska landsliðsins á HM í Katar í janúar.

Dagur tók við landsliðsþjálfarastarfinu í sumar eftir að Þýskaland féll úr leik í undankeppni HM 2015. Þýskaland komst svo óvænt inn í keppnina eftir að þátttökuréttur Ástralíu var afturkallaður.

„Allir þjálfarar verða dæmdir af árangri sínum og í því tilliti þarf að skoða árangur liðsins á mótinu í Katar,“ sagði Brand við þýska fjölmiðla en hann gerði Þýskaland að Evrópumeistara árið 2004 og heimsmeistara þremur árum síðar.

Hann telur að Þýskaland eigi að stefna hátt þrátt fyrir óvenjulega leið þess til Katar. „Þýska handknattleikssambandað verður stærðar sinnar vegna að setja sér háleit markmið,“ segir Brand sem segir að Þýskaland eigi að stefna á að komast að minnsta kosti í 8-liða úrslit keppninnar. „Þrátt fyrir misjafnt gengi síðustu ára getur þýska landsliðið unnið hvaða andstæðing sem er á góðum degi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×