Fótbolti

Ödegaard semur líklega við Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Talið er að norska ungstirnið Martin Ödegaard muni í dag ganga frá samningum við Real Madrid á Spáni. Þetta er fullyrt í norskum fjölmiðlum.

Ödegaard fór í gær með föður sínum og umboðsmanni með einkaflugvél frá Noregi til Madrídar en þessi sextán ára kappi hefur verið einn eftirsóttasti knattspyrnumaður Evrópu síðustu mánuðina.

Hann er á mála hjá Strömsgodset í heimalandinu og skoraði fimm mörk í 23 leikjum með félaginu á síðustu leiktíð þrátt fyrir ungan aldur. Hann sló einnig met Sigurðar Jónssonar er Ödegaard kom inn á sem varamaður með norska landsliðinu í leik gegn Eistlandi í undankeppni EM 2016 en Ödegaard varð þar með yngsti leikmaður sem spilar í undankeppni EM frá upphafi.

Þetta er í þriðja sinn sem að Ödegaard heldur til Madrídar á síðastliðnu hálfa ári og samkvæmt heimildum norskra miðla er ætlunin nú að ganga frá samningum við félagið.

Hann heimsótti mörg stórlið í Evrópu í haust, svo sem Bayern München, Barcelona, Liverpool og bæði Manchester-félögin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×