Florentino Pérez, forseti Real Madrid, er búinn að finna leið til þess að fjármagna miklar endurbætur á heimavelli félagsins en það þýðir samt að leikvangurinn heimsfrægi fær nýtt nafn.
Spænska blaðið AS segir frá því að Estadio Santiago Bernabéu muni heita Abú Dabí Bernabéu í framtíðinni en Florentino Pérez ætlar sér að gera Santiago Bernabéu að besta fótboltaleikvangi í heimi en það kallar á miklar og dýrar framkvæmdir.
Furstinn í Abú Dabí mun redda hluta af þeim 500 milljónum evra sem framkvæmdirnar munu kosta en hann mun borga félaginu 20 milljónir evra á ári fyrir nafnaréttinn en greiðslurnar fara í gegnum fyrirtækið IPIC.
Það kom til greina að nafnið yrði IPIC Bernabéu eða Cepsa Bernabéu en það var ekki samþykkt.
Meðal breytinga á leikvanginum verður nýtt þak sem er hægt að opna en stefnan er sett á að "nýi" Bernabéu verði tilbúinn fyrir árið 2017. Leikvangurinn tekur 85.454 manns í dag en ekki er ljóst hvort sú tala muni hækka eða lækka við þessar breytingar.

