Kristján Arason hrósaði Degi Sigurðssyni, þjálfara þýska landsliðsins í handbolta, í HM-kvöldinu í gærkvöldi en þá var farið yfir sextán liða úrslitin á HM í Katar.
Kristján talaði sérstaklega um þá sterku liðsheild sem Dagur hefur náð að búa til innan þýska liðsins sem hefur oftar en ekki verið þekktara fyrir að leikmenn vinni ekki nógu vel saman.
Það er hinsvegar ekki raunin á HM í Katar þar sem þýska liðið hefur ekki tapað leik og er nú komið alla leið inn í átta liða úrslitin. Þýska liðið mætir gestgjöfum Katarbúa í átta liða úrslitum keppninnar á morgun.
„Það er frábært að Dagur hefur náð að búa til frábæra liðsheild. Hann vinnur þennan leik á móti Egyptum en það er svo gaman að sjá hvað það er mikil liðsheild í þýska liðinu. Við höfum oft átt þessa stóru og sterku liðsheild," sagði Kristján Arason um þýska liðið.
Hörður Magnússon stýrði þættinum og nefndi að Dagur Sigurðsson sé mátulega kærulaus út á við. Guðjón Guðmundsson tók undir það.
„Hann tekur þessu létt og þeir vinna fyrir hann. Þeir eru að selja sig fyrir þjálfarann sinn ekki bara fyrir Þýskaland. Þeir eru að spila þetta svolítið fyrir hann. Þeir treysta á hann, þeir trúa á hann og leikgleðin og viljinn í þessu liði er alveg ótrúlegur," sagði Guðjón Guðmundsson.
Það má sjá allt innslagið um Dag og þýska landsliðið hér fyrir ofan.
