Barcelona átti ekki í miklum vandræðum með að vinna Elche á útivelli í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Lokatölur 0-6, Börsungum í vil sem jöfnuðu þar með Real Madrid að stigum á toppi deildarinnar. Real Madrid á þó leik til góða.
Gerard Piqué skoraði eina mark fyrri hálfleiks en í seinni hálfleik brast stíflan.
Lionel Messi skoraði annað mark Barcelona á 55. mínútu úr vítaspyrnu og Neymar bætti svo tveimur mörkum við með tveggja mínútna millibili.
Messi skoraði sitt annað mark á 88. mínútu og tveimur mínútum seinna skoraði Pedro sjötta mark Börsunga.
