Fótbolti

Öruggt hjá Barcelona í Bilbao

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Messi og Neymar fagna mark Messi
Messi og Neymar fagna mark Messi Vísir/Getty
Barcelona vann öruggan 5-2 sigur á Athletic Club frá Bilbao á útivelli í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Lionel Messi kom Barcelona á bragðið með marki úr aukaspyrnu eftir stundarfjórðung. Skotið fór af varnarveggnum og í markið.

Tíu mínútum síðar bætti Luis Suarez öðru marki við eftir sendingu frá Messi og ljóst að Athletic Club ætti litla möguleika gegn stórliðinu.

Athletic Club náði þó að minnka muninn á 14. mínútu seinni hálfleiks þegar Mikel Rico skoraði af stuttu færi en það varð bara til þess að Barcelona keyrði upp hraðann á ný og gerðu gestirnir út um leikinn skömmu síðar.

Fyrst skaut Messi í varnarmann og inn á 62.  mínútu eða þremur mínútum eftir að Athletic minnkaði muninn. Tveimur  mínútum síðar skoraði Neymar eftir sendingu Messi og staðan orðin 4-1.

Heimamenn eru þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og tveimur mínútum síðar minnkaði Oscar De Marcos muninn í tvö mörk.

Eftir þessar ótrúlegu fimm mínútur hægðist á leiknum á ný eða allt þar til varamaðurinn Pedro skoraði fimmta mark Barcelona fjórum mínútum fyrir leikslok en varnarmaðurinn Etxeita var rekinn af leikvelli þegar stundarfjórðungur var eftir til að gera vonlaust verkefni enn erfiðara fyrir Athletic.

Barcelona er í öðru sæti deildarinnar eftir 22 leiki, stigi á eftir Real Madrid. Athletic Club er í 13. sæti með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×