Svartfellingurinn Stevan Jovetic virðist ekki eiga bjarta framtíð hjá Man. City.
Honum var í gær hent úr Meistaradeildarhópi Man. City. Wilfried Bony, sem var að koma frá Swansea, er aftur á móti mættur í hópinn.
Með komu Bony var City komið yfir hámark erlendra leikmanna í hópnum. Jovetic lenti svo undir niðurskurðarhnífnum en það segir talsvert um hans stöðu.
Jovetic hefur aðeins skorað 11 mörk síðan hann var keyptur á 22 milljónir punda frá Fiorentina árið 2013. Talsverð meiðsli hafa heldur ekki hjálpað honum á þessari leiktíð.
