Everton og Liverpool mætast á Goodison Park á laugardaginn í nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni og fyrir leikinn munu heimamenn Everton minnast versta dags í sögu Liverpool með táknrænum hætti.
Everton-menn ætla að nota tækifærið til að vígja minningarskjöld um Hillsborough-slysið en 96 stuðningsmenn Liverpool létust í slysinu vorið 1989.
Þetta verður 224. Merseyside-slagurinn og það var Everton-stuðningsmaðurinn Stephen Kelly sem átti hugmynd að minnismerkinu en bróðir hans, Michael, var einn af þeim sem kramdist til bana á Hillsborough-leikvanginum.
Leikmenn, starfsmenn og stuðningsmenn Everton fengu mikið lof frá öllum fyrir framgöngu sína í tengslum við 25 ára afmælis þessa voðalega slyss á síðasta ári.
Knattspyrnustjórinn Roberto Martinez hélt meðal annars ræðu þar sem hann talaði um að Everton gleymi aldrei þeim 96 sem fórust í þessu slysi sem varð á undanúrslitaleik í ensku bikarkeppninni.
Minnismerkið verður fyrir framan Park End stúkuna á Goodison Park en það er suðurstúkan fyrir aftan annað markið og sú stúka sem snýr í átt að Anfield-leikvanginum.
Leikur Everton og Liverpool fer fram á laugardaginn klukkan 17.30 og verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
