Fótbolti

Er Dortmund að fara að falla? - Ellefta deildartapið staðreynd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp er ekki að ná að bjarga Dortmund.
Jürgen Klopp er ekki að ná að bjarga Dortmund. vísir/getty
Borussia Dortmund hélt uppteknum hætti í þýsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld þegar liðið tapaði fyrir spútnikliði Augsburg, 1-0, á heimavelli.

Raul Bobadilla skoraði eina mark leiksins á 50. mínútu, en gestirnir misstu mann af 64. mínútu. Þrátt fyrir að spila einum fleiri síðustu 25 mínúturnar eða svo tókst Dortmund ekki einu sinni að ná í stig.

Jürgen Klopp getur ekki kvartað mikið yfir meiðslavandræðum lengur, en hann stillti upp eins góðu lið og hann getur í kvöld.

Mats Hummels og Sokratis voru í vörninni, Gündogan á miðjunni, Marco Reus, Aubameyang og Immobile í sókninni með Nuri Sahin fyrir aftan sig. Hann gat meira segja leyft sér að geyma Neven Subotic, Shinji Kagawa og Henrik Mkhitaryan á varamannabekknum.

Helstu vandræði Dortmund-liðsins er að það getur varla skorað. Það hefur aðeins skorað 18 mörk í fyrstu 19 leikjum liðsins. Bara Hamburg SV er með verri árangur. Það hefur ekki skorað nema ellefu mörk en er samt fimm sætum fyrir ofan Dortmund.

Dortmund hefur aðeins einu sinni skorað meira en tvö mörk í síðustu sjö deildarleikjum sínum og er nú án sigurs á nýju ári. Það er búið að tapa tveimur leikjum og gera eitt jafntefli.

Til allrar hamingju fyrir Dortmund eru fleiri stórlið í vandræðum í botnbaráttunni. Þó það sé á botninum með 16 stig eru aðeins tvö stig í öruggt sæti þar sem Hertha Berlín, Stuttgart og Freiburg eru í næstu sætum fyrir ofan með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×