Körfubolti

Haukur Helgi og Jakob Örn frábærir í sigrum LF Basket og Sundsvall

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Helgi Pálsson átti stórleik.
Haukur Helgi Pálsson átti stórleik. vísir/vilhelm
Sundsvall Dragons vann fimmta sigurinn í röð í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld þegar liðið lagði ecoÖrebro, 102-87, á heimavelli.

Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson áttu báðir flottan leik fyrir heimamenn, en Jakob skoraði 25 stig og hitti úr sjö af ellefu þriggja stiga skotum sínum.

Hlynur gældi við tvennuna, en hann skoraði 19 stig og tók átta fráköst. Ægir Þór Steinarsson skilaði sex stigum, sjö fráköstum og sjö stoðsendingum og stóri maðurinn Ragnar Nathanaelsson tók tvö fráköst.

LF Basket komst aftur á sigurbraut í kvöld þegar liðið vann Jämtland Basket á útivelli, 89-71, en þar fór landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson á kostum.

Hann skoraði ellefu stig, tók þrettán fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal fimm boltum. Þetta var besti árangur hans í fráköstum, stoðsendingum og stolnum boltum í einum leik á tímabilinu.

Sigurður Þorsteinsson og félagar í Solna Vikings þurftu að lúta í gras gegn Uppsala Basket á heimavelli, 83-78, en það var eina Íslendingaliðið sem vann ekki í kvöld.

Ísafjarðartröllið átti skínandi leik engu að síður og skoraði 15 stig auk þess sem hann tók fjögur fráköst.

LF Basket og Sundsvall eru í 4.-5. sæti deildarinnar með 32 stig, en Solna er í sjöunda sætiinu með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×