Handbolti

Hildigunnur fær að spila sem áhugamaður í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hildigunnur í leik með íslenska landsliðinu.
Hildigunnur í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Valli
Hildigunnur Einarsdóttir er búin að finna sér félag sem hún getur spilað með til loka tímabilsins en um helgina gekk hún í raðir sænska úrvalsdeildarfélagsins BK Heid.

Sunna Jónsdóttir, sem leikur með Hildigunni í íslenska landsliðinu, leikur með BK Heid en í frétt á heimasíðu sænska félagsins segir að á föstudagskvöld hafi forsvarsmaður liðsins fengið símtal frá íslenskum umboðsmanni.

Þar hafi honum staðið til boða að semja við íslenskan landsliðsmann til loka tímabilsins án þess að greiða krónu fyrir. En það þyrfti að ganga frá félagaskiptunum fyrir miðnætti á sunnudagskvöld.

Sjá einnig: Hildigunnur úr leik í vetur

Það gekk eftir en félagið fékk styrktaraðila til að greiða félagaskiptagjaldið og ferðakostnað Hildigunnar til Svíþjóðar. Hún gerði áhugamannasamning við félagið sem þýðir að hún fær engin laun frá félaginu, heldur aðeins nauðsynlegan útbúnað.

Forsaga málsins er sú að Hildigunnur vildi komast frá norska félaginu Tertnes, þar sem hún fékk lítið að spila, og úr varð að hún ákvað að skella sér til Molde þar sem Einar Jónsson er þjálfari. Þar var hún örugg um að fá að spila meira.

Sjá einnig: Þetta eru asnaleg og gamaldags vinnubrögð

Það var gengið frá öllu á réttum tíma, gengið frá greiðslu í gegnum netbanka og rafræn kvittun send til norska handknattleikssambandsins. Pappírskvittun kom svo degi síðar, en þá hafði félagaskiptaglugganum verið lokað, og það reyndist ekki vera nógu gott.

Norska sambandið neitaði að taka rafrænu kvittunina góða og gilda og dæmdi Hildigunni í bann út tímabilið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×