Mörk frá Isco og Karim Benzema tryggðu Real Madrid 2-0 sigur á Deportivo La Coruna í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Með sigrinum náðu Madrídingar fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar en Barcelona og Atletico Madrid geta dregið á toppliðið vinni liðin leiki sína á morgun.
Isco kom Real Madrid yfir á 22. mínútu í leik kvöldsins eftir sendingu frá hægri bakverðinum Álvaro Arbeloa en nokkrum mínútum áður hafði Gareth Bale átt skot í slá Deportivo-marksins.
Benzema bætti svo öðru marki við á 73. mínútu og gulltryggði sigur Evrópumeistaranna. Cristiano Ronaldo lagði upp mark Benzema en Portúgalinn er nú kominn í tveggja stafa tölu í bæði mörkum (28) og stoðsendingum (10) í deildinni. Ronaldo var nálægt því að bæta 29. markinu við í kvöld en skaut í slá.
Brasilíski miðjumaðurinn Lucas Silva kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik í sínum fyrsta leik fyrir Real Madrid. Hann er 22. Brasilíumaðurinn sem leikur fyrir félagið en sá fyrsti var Fernando Giudicelli fyrir 80 árum.

