Fótbolti

Kjartan Henry heill heilsu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Henry í leik með KR síðastliðið sumar.
Kjartan Henry í leik með KR síðastliðið sumar. Vísir
Kjartan Henry Finnbogason er búinn að jafna sig á axlarmeiðslunum sem voru að plaga hann allt síðastliðið haust. Þetta segir hann í samtali við danska fjölmiðla.

Kjartan Henry gekk í raðir Horsens frá KR síðastliðið sumar en kom aðallega við sögu hjá liðinu sem varamaður. Hann var að glíma við meiðsli í öxl og segist aldrei hafa náð að komast almennilega í gang.

„En mér líður betur nú og er heill heilsu og klár í slaginn. Ég hef líka kynnst liðsfélögunum betur og hlakka því til að vortímabilið byrji,“ sagði hann en Kjartan Henry skoraði eitt mark í ellefu leikjum með liðinu í haust.

„Ég get vonandi skorað nokkur mörk fyrir liðið enda er ég hingað kominn til þess. Ég vil skora eins mikið og ég get. Við erum með gott lið þannig að ég veit að mörkin koma. Það er líka góð stemning í liðinu.“

Það hafa verið fjárhagsvandræði í félaginu að undanförnu en Kjartan Henry segir að leikmenn hafi einbeitt sér að því að byggja upp gott lið. Horsens mætir Roskilde í fyrsta leik vorsins þann 15. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×