Handbolti

Danskir fjölmiðlar eru grimmari en þeir íslensku

Guðmundur í yfirheyrslu hjá dönsku pressunni.
Guðmundur í yfirheyrslu hjá dönsku pressunni. vísir/eva björk
Þegar HM í Katar lauk flaug Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Danmerkur, heim til Íslands og tók sér algjört frí frá handbolta.

Guðmundur er þekktur vinnuþjarkur og fríið stóð því ekki nema í viku.

„Síðan fór ég að greina leikina frá HM. Ég er búinn að horfa margoft á alla leikina okkar. Ég tek þá kerfi fyrir kerfi. Ég er búinn að greina okkar leik í þaula," sagði Guðmundur við Ekstrabladet.

Sjá einnig: Guðmundur: Sorglegur endir

Guðmundur segist hafa verið mjög ánægður með varnarleikinn á mótinu og þá sérstaklega samvinnu Toft-bræðranna fyrir miðri vörninni.

„Ég er mjög ánægður hvernig mér gekk að dreifa álaginu á mótinu. Nánast allir spiluðu mikið og það veitti ekki af því það var spilað þétt. Leikmennirnir voru alltaf ferskir," sagði Guðmundur en hélt svo uppi gagnrýni sinni á að hætta með milliriðla og fara beint í útsláttarkeppni.

Guðmundur líflegur á HM.vísir/eva björk
Sjá einnig: HM er eins og bikarkeppni

Guðmundur segist hafa gert sér grein fyrir því að pressan yrði mikil á honum í nýju starfi og að hann þyrfti að glíma við meiri pressu frá fjölmiðlum en þegar hann þjálfaði Ísland.

„Handbolti er stór íþrótt í Danmörku og því voru margir fjölmiðlar á mótinu. Það eru forréttindi fyrir íþróttina og ég bjóst við mikilli pressu. Það eru vissulega margir sérfræðingar sem vilja tjá sig um allt en það sem máli skiptir er að það sé gert á faglegum nótum," sagði Guðmundur en fannst honum dönsku fjölmiðlarnir ósanngjarnir í hans garð?

„Ég hugsa ekki mikið um það. Ég einbeiti mér að minni vinnu. Það er munur á íslensku fjölmiðlunum og þeim dönsku. Dönsku fjölmiðlamennirnir eru grimmari. Það er í fínu lagi. Ég hef gaman af því að ræða málin en stundum fannst mér eins og fjölmiðlarnir væru of neikvæðir. Ég upplifði það sérstaklega eftir leikinn við Þjóðverja."

Sjá einnig: Guðmundur: Þykir vænt um drengina í íslenska liðinu

Guðmundur breytti út af venjunni fyrir leikinn gegn Íslandi. Þá gaf hann ekki einstaklingsviðtöl heldur mætti bara á blaðamannafund.

„Það var mjög sérstakur leikur fyrir mig því ég þjálfaði íslenska liðið í mörg ár. Ég vildi ekki tala of mikið um leikinn og ég gaf íslensku fjölmiðlamönnunum ekki heldur viðtöl. Ég vildi einbeita mér að leiknum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×