Fótbolti

Baldur og Eggert áfram í bikarnum en Hólmbert úr leik

Baldur spilaði fyrri hálfleikinn.
Baldur spilaði fyrri hálfleikinn. vísir/daníel
Baldur Sigurðsson og félagar hans í SönderjyskE komust í undanúrslit í danska bikarnum í fótbolta í kvöld með sigri á Hólmbert Aroni og félögum hans í Bröndby, 4-2.

Baldur spilaði fyrri hálfleikinn fyrir SönderjyskE sem komst yfir, 1-0, áður en Johan Elmander, fyrrverandi framherji WBA á Englandi, jafnaði fyrir gestina.

Bæði lið skoruðu sitthvort markið til viðbótar og þurfti því að framlengja. Í framlengingunni skoraði SönderjyskE tvö mörk á tíu leikmenn Bröndby, en Dario Dumic var rekinn af velli í liði gestanna á 75. mínútu.

Hólmbert Aron kom inná á 113. mínútu en gat ekki komið í veg fyrir sigur Baldurs og félaga.

Eggert Gunnþór Jónsson var svo í byrjunarliði Vestsjælland sem komst einnig í undanúrslitin í kvöld með sigri á Bronshöj á útivelli, 2-1.

Eggert Gunnþór var í byrjunarliði Vestsjælland og spilaði sem varnartengiliður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×