Íslenski landsliðsmaðurinn Theódór Elmar Bjarnason spilaði bara fyrri hálfleikinn þegar lið hans Randers FC tapaði 2-1 á móti toppliði FC Midtjylland.
Midtjylland skoraði sigurmarkið sitt tveimur mínútum fyrir leikslok og þar var á ferðinni Jakob Poulsen með skoti beint úr aukaspyrnu. Skömmu áður hafði Kasper Fisker, leikmaður Randers, fengið sitt annað gula spjald.
Theódór Elmar fór meiddur af velli í hálfleik en þá var staðan 1-1. Hann var að spila á hægri vængnum á fjögurra manna miðju Randers-liðsins.
Mikael Ishak kom Randers yfir á 9. mínútu leiksins en Kristian Bach Bak jafnaði metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Randers vann 3-0 stórsigur á Nordsjælland í fyrsta leik sínum eftir vetrarfríið en hefur síðan tapað þremur deildarleikjum í röð.
Midtjylland náði eftir þennan sigur tólf stiga forskoti á FC Kaupmannahöfn á toppi dönsku deildarinnar en Rúrik Gíslason og félagar í FCK eiga leik inni á sunnudaginn. Randers er í 3. sæti nú sextán stigum á eftir Midtjylland.
Theódór Elmar fór meiddur af velli í hálfleik
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir

Þeir bestu (50.-41. sæti): Skagamiðverðir, markahrókar úr Eyjum og Laugardalnum og öldungurinn aftast
