Enski boltinn

Lennon um nýjan samning Eiðs: Jákvæð teikn á lofti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári fagnar marki í leik með Bolton.
Eiður Smári fagnar marki í leik með Bolton. Vísir/Getty
Neil Lennon, stjóri Bolton, segir að Eiður Smári Guðjohnsen hafi staðið sig afar vel með liðinu síðan hann samdi við félagið í haust.

Eiður Smári gerði samning fram á sumar en kappinn var í síðustu viku valinn í íslenska landsliðið sem mætir Kasakstan í undankeppni EM 2016 á laugardag.

Hann verður 37 ára í september en engu að síður er talið að hann hafi mikinn hug á að spila með íslenska landsliðinu á EM 2016 í Frakklandi, komist liðið þangað. Það er því talið líklegt að hann sé áhugasamur um að spila áfram með Bolton í ensku B-deildinni.

„Það er mikið undir honum sjálfum komið,“ sagði Lennon við The Bolton News. „Dvöl hans hér hefur verið félaginu og honum sjálfum til bóta en hann þarf sjálfur að ákveða hvort hann verði áfram. Það hafa þó verið jákvæð teikn á lofti. Eiður hefur verið frábær.“

Eiður Smári hefur skorað fjögur mörk í átján leikjum með Bolton og samkvæmt Lennon hefur hann einnig haft mikil og góð áhrif á leikmannahópinn og verið mikil fyrirmynd fyrir yngri leikmenn, bæði innan sem utan vallar.

„Hann hefur spilað vel. Það er erfitt fyrir hann að spila leik á laugardegi og svo strax aftur á þriðjudegi en það var vitað fyrirfram. Hann hefur þó hugsað mjög vel um sjálfan sig og það er auðvitað frábært að hann var aftur valinn í landsliðið sitt. Það er frábær saga.“

„Það var honum mikil hvatning að komast aftur í landsliðið. Það ætti að vera gott fordæmi fyrir aðra. Það er allt hægt ef maður ætlar sér að ná ákveðnum markmiðum, jafnvel þótt maður sé 36 ára.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×