Handbolti

Ólafur kvaddi með sigri | Myndaveisla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur kom inn á undir lok fyrri hálfleiks og lék í um 10 mínútur.
Ólafur kom inn á undir lok fyrri hálfleiks og lék í um 10 mínútur. vísir/daníel
KIF Kolding Kaupmannahöfn er fallið úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta. Engu skipti þótt liðið hafi unnið tveggja marka sigur, 23-21, á Zagreb frá Króatíu í Bröndby-höllinni í dag.

Daníel Rúnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á leiknum og tók meðfylgjandi myndir.

Ólafur Stefánsson lék í um 10 mínútur, en komst ekki á blað. Þetta var síðasti leikur hans á ferlinum en Ólafur tók skóna af hillunni til að hjálpa Kolding í þessum tveimur leikjum.

Kolding tapaði fyrri leiknum í Króatíu, 22-17, og því var ljóst að dönsku meistaranna biði erfitt verkefni í dag.

Kolding var með með forystu lengst af fyrri hálfleiks þótt lærisveinum Arons Kristjánssonar tækist aldrei að slíta sig frá króatíska liðinu.

Staðan var 11-9 í hálfleik og sama baráttan hélt áfram í seinni hálfleik. Kolding gekk sem fyrr bölvanlega að ná góðu forskoti en sóknarleikur liðsins í báðum leikjunum var slakur.

Kolding vann á endanum tveggja marka sigur, 23-21, en Zagreb vann viðureignina samanlagt 43-40.

vísir/daníel
vísir/daníel
vísir/daníel

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×