Handbolti

Jafntefli í risaslagnum | Kiel enn með tveggja stiga forystu á toppnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Uwe Gensheimer gerir örvæntingafulla tilraun til að stöðva Aron Pálmarsson.
Uwe Gensheimer gerir örvæntingafulla tilraun til að stöðva Aron Pálmarsson. Vísir/Getty
Kiel og Rhein-Neckar Löwen skildu jöfn, 23-23, í stórleik helgarinnar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Jafnteflið hentar Kiel betur en Löwen en lærisveinar Alfreðs Gíslasonar eru enn með tveggja stiga forskot á Löwen sem á þó leik inni. Markatala Kiel er hins vegar mun betri en hún gæti ráðið úrslitum líkt og á síðasta tímabili.

Aron Pálmarsson og Alexander Petersson skoruðu báðir tvö mörk í leiknum en Stefán Rafn Sigurmannsson kom ekkert við sögu hjá Löwen.

Varnarleikur liðanna var gríðarlega sterkur og mörkin voru fá til að byrja með. Markverðir liðanna voru einnig í góðum gír. Daninn Niklas Landin varði 19 skot í marki Löwen en landi hans, hinn 22 ára gamli Kim Sonne Hansen, varði 12 skot í markinu hjá Kiel.

Um miðjan fyrri hálfleik var staðan 3-3 en þá kom góður kafli hjá Kiel sem skoraði fjögur mörk gegn einu á tveimur mínútum og komst 7-4 yfir.

Steffen Weinhold átti flottan leik fyrir Kiel.vísir/getty
Þá tók Nicolaj Jacobsen, þjálfari Löwen, leikhlé og eftir það kviknaði á hans mönnum sem skoruðu fimm mörk gegn einu og komust yfir, 8-9, þegar Andy Schmid skoraði með frábæru skoti.

Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en staðan að honum loknum var 11-10, Kiel í vil.

Það sama var uppi á teningnum framan af seinni hálfleik en stöðunni 15-15 hertu heimamenn tökin. Þeir skoruðu sex mörk gegn tveimur og komust fjórum mörkum yfir, 21-17, þegar tíu mínútur lifðu leiks.

Sænski hornamaðurinn Niclas Ekberg fór mikinn á þessum kafla en hann skoraði fjögur mörk á sex mínútum eftir að hafa haft hægt um sig í fyrri hálfleik.

Ljónin frá Mannheim fengu líflínu þegar Joan Canellas var rekinn út af í tvær mínútur fyrir brot á Alexander sem kom ekki meira við sögu í leiknum.

Nicolaj Jacobsen, þjálfari Löwen, var líflegur á hliðarlínunni í dag.vísir/getty
Löwen skoraði tvö mörk í röð áður en Domagoj Duvnjak skoraði 22. mark Kiel. En þá var komið að þætti Uwe Gensheimer, fyrirliða Löwen, sem skoraði þrjú mörk í röð og jafnaði metin í 22-22.

Steffen Weinhold kom Kiel aftur yfir í 23-22 með þrumuskoti en Harald Reinkind tryggði Löwen stig þegar hann jafnaði í 23-23. Kiel fékk síðustu sóknina þar sem Landin varði skot Weinholds, Aron tók frákastið en skaut boltanum í slána og niður. Liðin sættust því á skiptan hlut.

Weinhold var markahæstur í liði Kiel með fimm mörk en Ekberg kom næstur með fjögur.

Gensheimer var einu sinni sem oftar markahæstur hjá Löwen með átta mörk. Schmid skoraði fjögur og Kim Ekdahl du Rietz þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×